Posted: 30 Jan. 2024 5 min. read

Dansað meðfram kaupverði fyrirtækja

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 30. janúar 2024.

--

Eigendaskipti á fyrirtækjum eru meðal afdrifamestu atburða í lífi fyrirtækis og hluthafa þess. Seljendur kunna að hafa lagt ævi sína í að byggja upp fyrirtækið og þurfa að sleppa taki á ævistarfi sínu gegn greiðslu kaupverðs. Kaupanda er á sama tíma nauðsynlegt að tryggja að fjármagni sé sem best varið við kaup á hlutafénu og að kaupverðið sé í samræmi við þau verðmæti sem reksturinn getur fært kaupandanum til framtíðar.

Kaupsamningur um hlutafé er dans milli þessara gagnstæðu hagsmuna samningsaðilanna, sem hverfist um að leggja línurnar að því er varðar réttindi og skyldur þeirra. Sjálft kaupverðið er að sjálfsögðu í miðju hringiðunnar en meta þarf fjárhæð endurgjaldsins með hliðsjón af öðrum ákvæðum samningsins. Kaupverðið er nefnilega miðað við þær forsendur sem orðaðar eru í samningi og getur bæði tekið breytingum við uppgjör, til dæmis m.t.t. birgðatalningar eða skuldastöðu á uppgjörsdegi, eða vegna þess að í ljós kemur að tilteknar forsendur samningsins halda ekki. Hið síðarnefnda getur til að mynda komið upp þegar í ljós kemur að fyrirtækið hefur til langs tíma vantalið skattstofn sinn eða ef því brestur heimild til að nýta mikilvæg sérleyfi. 

Kaupsamningur um hlutafé er dans milli þessara gagnstæðu hagsmuna samningsaðilanna, sem hverfist um að leggja línurnar að því er varðar réttindi og skyldur þeirra.

Kaupandi fyrirtækis fer því iðulega fram á umfangsmiklar ábyrgðaryfirlýsingar, til að skýrt sé að ákvörðun kaupverðsins miði við að tiltekin réttindi séu til staðar eða að tiltekin háttsemi hafi ekki átt sér stað, svo fátt eitt sé nefnt. Seljandi getur á móti viljað tryggja að skýrt sé tekið fram að ákveðnar óhagstæðar forsendur séu teknar með í reikninginn, eða hafi ekki áhrif á kaupverðið, svo sem með því að telja til frávik frá ábyrgðaryfirlýsingum, milda orðalag þeirra eða undanskilja ábyrgð undir tilteknu fjárhæðarlágmarki. Þessum dansi stýra lögmenn eða aðrir ráðgjafar kaupenda og seljenda, enda leikurinn sprottinn af meginreglum fjármunaréttar og laga um lausafjárkaup, um ástand og gæði hinna seldu hluta. Þungamiðja réttarstöðunnar leiðir af flóknu samspili reglna um upplýsingaskyldu seljanda og rannsóknarskyldu kaupanda (l. „Caveat emptor“) þar sem seljandi ber ekki ábyrgð á atriðum sem hann upplýsti um og kaupandi getur ekki borið fyrir sig atvik sem hann hefði átt að koma auga á við eðlilega skoðun á hinu selda. Af þessum sökum eru áreiðanleikakannanir nær undantekningalaust framkvæmdar í miðju söluferlinu. Báðir aðilar hafa hagsmuni af því að rannsókn á fyrirtækinu fari fram við söluna og kann því hvort heldur kaupandi, seljandi eða aðili sem veitir tryggingu í tengslum við viðskiptin, að óska eftir slíkri könnun.

Hve umfangsmikil sú skoðun er fer eftir mati aðila hverju sinni og eðli þeirrar starfsemi sem fyrirtækið rekur. Meta þarf hverju sinni hvar helstu áhættuþættir liggja en á Íslandi er algengast að áreiðanleikakönnun skiptist í fjárhagslega-, lögfræðilega- og skattalega könnun. Vegna aukinnar áherslu á upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu eru sérstakar UFS áreiðanleikakannanir nú framkvæmdar í auknum mæli enda getur áhætta tengd sjálfbærni haft áhrif á kaupverð. Víða erlendis, t.a.m. í suðurhluta Evrópu, er algengt að sérstök áhersla sé á vinnurétt og að fram fari sérstök áreiðanleikakönnun á því sviði á meðan almenn athugun á ráðningarsamningum og samningum við stjórnendur telst yfirleitt á meðal þeirra hluta sem kannaðir eru undir lögfræðilegri áreiðanleikakönnun hér á landi. Sé um að ræða kaup á fyrirtæki í hugbúnaðargeiranum kann að vera ástæða til að fram fari sérstök tæknileg áreiðanleikakönnun og svo mætti lengi telja.

Aðalatriðið er að aðilarnir meti hvaða þættir í rekstri fyrirtækis séu líklegastir til að hafa áhrif á fyrirtækið og eftir atvikum kaupverðið ef út af bregður. Ráðgjafar kaupenda og seljenda geta veitt leiðsögn um þessi atriði en mikilvægt er að við val á ráðgjafa hafi samningsaðilar í huga að áreiðanleikakannanir eru eins misjafnar og þær eru margar. Hæstiréttur hefur vísað til þess að hvorki sé í lögum né öðrum skráðum réttarreglum að finna afmörkun á því hvað ætlast sé til að áreiðanleikakönnun á fyrirtæki í atvinnurekstri hafi að geyma. Í máli Hæstaréttar nr. 7/2019 sagði dómurinn að tilvísun ráðgjafa til þess að fram færi viðskipta- og lögfræðileg áreiðanleikakönnun gæti ekki talist gefa til kynna að hverju könnunin lyti nánar og hafnaði því að ráðgjafi kaupanda gæti borið ábyrgð á tjóni sem tengdist sérhæfðum atriðum í rekstri fyrirtækis.  Ljóst er að miklu máli skiptir fyrir kaupendur áreiðanleikakönnunar að þeir þættir sem könnunin lýtur að séu nægjanlega vel tilgreindir og að könnun taki til allra þeirra atriða sem nauðsynlegt er að kanna. Mýmörg dæmi eru um að ráðgjafar annist rannsókn á seldum félögum með svo takmarkaðri áreiðanleikakönnun að kaupanda eru vart tryggð önnur réttindi en þau að hann getur treyst því að fyrirtækið sé til og í eigu þeirra aðila sem samið er við.  Það kann ef til vill að vera fullnægjandi í einhverjum tilfellum en mikilvægt er að aðili sem óskar eftir tilboði í áreiðanleikakönnun geri sér grein fyrir því hvort fengin tilboð endurspegli þá rannsókn sem þörf er á.

Kaupendur þjónustu geta ef til vill með litlum tilkostnaði hakað við boxið „að framkvæma áreiðanleikakönnun“ en það eru hagsmunir allra samningsaðila að slík rannsókn sé ekki bara að nafni til heldur þjóni einnig tilgangi sínum.

Höfundur

Þorvarður Arnar Ágústsson

Þorvarður Arnar Ágústsson

Verkefnastjóri Deloitte Legal, lögmaður

Starfsferill Deloitte Legal, 2021- Deloitte, 2020-2021 Atlantik Legal Services,2017-2020 Focus lögmenn, 2017 Innheimtustofnun sveitarfélaga, 2014-2017 Menntun og starfsréttindi Verðbréfaréttindi, 2024 Héraðsdómslögmaður, 2018 Mag. Jur., Háskóli Íslands, 2017 B.A. í lögfræði, Háskóli Íslands, 2015 Verzlunarskóli Íslands, 2010 Ritstörf Ritrýnd fræðirit: Dreifðir Fjármagnsmarkaðir á Bálkakeðjum. 2023. Tímarit Lögfræðinga, 73 árg./2. tbl./ https://doi.org/10.33112/tl.73.2.2, bls. 251-348. Viðskiptahlutdeild: ábyrgð fyrirtækja á mannréttindabrotum viðsemjenda í alþjóðaviðskiptum. 2021. Úlfljótur, 74 árg./3. tbl., bls. 419-450. Fagtímarit: Fjármagn í álögum: Skattlagning verðbréfaviðskipta og fjármagnsmarkaða. FLE-blaðið 2023, 45. árg./1. tbl., bls. 8-11. Kóðuð fjármál og lög : táknreiddir fjármálagerningar og rafmyntaafleiður. Lögmannablaðið 2022; 28 (2): bls. 27-29. Að beisla stafræna dreifstýringu: Regluvæðing DLT og dreifðrar tölvuvinnslu. Tölvumál 2022 47. árg./1. tbl. Auk fjölda greina í Viðskiptablaðinu. Fyrirlestrar og kennsla Gestafyrirlestur í félagarétti í lagadeild Háskólans á Akureyri 2023. UT Messan 2022: Bálkakeðjur og sýndareignir - Lög eða Kóði. Ýmis viðtöl um skatta og lögfræði í hlaðvörpum og á öðrum vettvangi. --- Experience Deloitte Legal 2021- Deloitte, 2020-2021 Atlantik Legal Services, 2017-2020 Focus Law, 2017 Innheimtustofnun sveitarfélaga, 2014-2017 Education & Certifications Certified Securities Broker License, 2024 Attorney at Law, 2018 Magister juris, University of Iceland, 2017 B.A. in Law, University of Iceland, 2015 The Commercial College of Iceland, 2010 Publications Peer-reviewed law journals: Decentralized Capital Markets on Blockchain. 2023. Tímarit Lögfræðinga Law Review, Vol. 73/Issue 2, https://doi.org/10.33112/tl.73.2.2, pp. 251-348. Corporate Complicity. 2021. Úlfljótur Law Review, Vol. 74/ Issue 3, pp. 419-450. Professional journals: Taxation of Securities Transactions and Capital Markets: The Journal of The Institute of State Authorized Public Accountants 2023, Vol. 45/Issue 1, pp. 8-11. Crypto-Finance and Law: Tokenized Financial Instruments and Cryptocurrency Derivatives. The Journal of the Icelandic Bar Association, Vol. 28/Issue 2, pp. 27-29. Regulating DLT and Distributed Computing. Journal of The Icelandic Computer Society (Tölvumál), Vol. 47/Issue 1. Various publications in the Business Paper. Lectures: Guest Lecturer in Company Law at the University of Akureyri, Faculty of Law 2023. Speaker at UTmessan - IT Conference 2022: Blockchain and Crypto-Assets – Law or Code? Speaker in various podcasts and other venues on the topic of tax and law.