This site uses cookies to provide you with a more responsive and personalised service. By using this site you agree to our use of cookies. Please read our cookie notice for more information on the cookies we use and how to delete or block them

Bókamerki Netfang Prentvæn síða

Annual Review of Football Finance 2012


Vista viðhengi  

Tekjur Evrópuboltans tæpir 17 milljarðar evra

Deloitte gefur í dag út sína árlegu skýrslu um fjármál knattspyrnuheimsins.  Í henni kemur fram að heildartekjur evrópskra knattspyrnuliða hafa aukist um 4% milli ára eða sem nemur um 600 milljónum evra milli ára og námu alls 16,9 milljörðum evra á tímabilinu 2010/11.

Þessi vöxtur er þó hægari en undanfarin ár en miðað við efnahagslægðina í heiminum þá verður þetta að teljast góður árangur.  Það sem helst drífur vöxtinn áfram eru nýir sjónvarpsréttasamningar á Englandi og Ítalíu.

Enska úrvalsdeildin er áfram sú deild sem nær inn mestu tekjunum en tekjur ensku úrvalsdeildarfélaganna námu 2,5 milljarði evra en sú þýska kemur næst með um 1,7 milljarða evra og bilið er að minnka.  Þannig koma flestir áhorfendur á leiki í þýsku úrvalsdeildinni eða 42.100 að meðaltali og það ásamt auglýsingatekjum í stærsta efnahagskerfi Evrópu tryggir henni annað sætið.  Þýskaland fær aukasæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili og einnig munu sjónvarpstekjur þar í landi aukast til muna á næsta tímabili.

Spænska deildin er í þriðja sæti og jukust tekjar hennar um 5% milli ára og er það aðallega vegna tekjuaukningar hjá Barcelona og Real Madrid en samanlagðar tekjur annarra liða í spænsku deildinni lækkuðu milli ára.  Eins og áður kemur rúmur helmingur tekna liðanna í deildinni frá þessum tveimur félögum.  Í fjórða  sæti er ítalska deildin en þar á bæ hófu menn að nýju að selja sjónvarpsréttinn í heilu lagi og stuðlaði það að tekjuaukningu og jafnari skiptingu tekna milli liða.  Franska deildin er í fimmta sæti og minnkuðu tekjur hennar milli ára vegna slakari frammistöðu í Meistaradeildinni.

Sérfræðingar Deloitte telja það eftirtektarvert afrek að ná enn á ný að auka tekjurnar í efnahagslegri niðursveiflu.  Þó að vöxturinn sé mismunandi milli liða og deilda þá hefur fótboltinn þennan grundvallarstyrk að ná að laða áhorfendur og peningana þeirra að sér.  Samt sem áður þá standa sum frönsk, ítölsk og spænsk lið frammi fyrir því að hreinlega verða að ná að auka tekjur sínar á leikdegi og jafnvel að flýta framkvæmdum við vellina.  Frönsk lið þurfa sérstaklega að ná að nýta sér þær endurbætur sem gerðar verða á völlum þar í landi vegna Evrópumóts landsliða þar í landi árið 2016.

Laun leikmanna í stóru deildunum fimm jukust um 2% eða 100 milljónir evra og voru 5,6 milljarðar evra (ISK 907 milljarðar).  Í ensku úrvalsdeildinni hækkuðu launin mest og námu um 1,8 milljarði evra.  Í raun hækkuðu launin í öllum deildunum nema á Ítalíu.  Laun sem hlutfall af tekjum er ágætur mælikvarði á í hvað stefnir verði ekkert að gert, en í ensku úrvalsdeildinni, frönsku og ítölsku deildinni þá var hlutfallið komið yfir 70%.

Þýska deildin er áfram sú arðsamasta en rekstrarhagnaður þýsku liðanna var samtals 171 milljón evra.  Í öðru sæti kemur enska úrvalsdeildin með um 75 milljón evra í rekstrarhagnað meðan liðin í ítölsku og frönsku deildinni sýndu rekstrartap.

Kostnaðareftirlit verður áfram mesta áskorun knattspyrnuliða en launakostnaður er að aukast hlutfallslega mun hraðar en tekjurnar.  Því er það góðs viti að nýjar reglur UEFA um fjárhagslegt jafnvægi í rekstri knattspyrnuliða munu nú taka gildi og miðast við afkomu liðanna vegna nýafstaðins keppnistímabils.  Reglurnar gilda um lið sem taka þátt í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni og miðast við að reksturinn sé a.m.k. á núlli.

Annað sem kemur fram í skýrslu Deloitte :

• Tekjur vegna sjónvarpsréttasamninga í 5 stærstu deildum Evrópu námu rúmum 4,1 milljörðum evra sem er tæpur helmingur heildartekna þeirra.
• Tekjur á leikdegi námu 1,8 milljörðum evra og eru um 21% af heildartekjum liðanna í 5 stóru deildunum.  Tekjur á leikdegi í Englandi voru 40% hærri en á Spáni, helsta keppinautinum.
• Áhorfendafjöldi á leiki í þýsku (42.100) og ensku deildinni (35.400) jókst á tímabilinu á meðan fækkun varð í frönsku, 3. árið í röð og er kominn undir 20.000.
• Af öðrum efstu-deildum þá er rússneska deildin næst á blaði með 614 milljónir evra en þar á eftir koma tyrkneska og hollenska deildin.
• Í raun er samt 8. sætið tilheyrandi ensku B-deildinni en tekjur hennar námu 468 milljónum evra.
• Manchester City setti met í taprekstri en tapið nam um 82 milljónum punda á meðan keppinautarnir í Manchester United komust í fyrsta skipti yfir 100 milljónir punda í hagnað.
• Áttunda árið í röð greiðir Chelsea hæstu launin í ensku úrvalsdeildinni eða 191 milljón punda og Manchester City kom næst með 174 milljónir punda.
• Samkvæmt skýrslunni eru mjög sterk tengsl á milli í hvaða sæti liða lenda í deildinni og í hvaða sæti þau eru sé horft til launakostnaðar.

Upplýsingar

Nafn:
Rögnvaldur Rögnvaldsson
Fyrirtæki:
Deloitte
Atvinna:
Markaðsstjóri
Sími:
+354 860 3020
Netfang
rognvaldur.rognvaldsson@deloitte.is